Magnús Ólafsson - starfslok

Magnús Ólafsson fyrrverandi forstjóri Mjólkursamsölunnar ehf og Auðhumlu sf, lauk formlega störfum þann 1. maí s.l. Þar með er lokið áratuga farsælum starfsferli hjá manni sem alla tíð naut virðingar og vinsælda samstarfsmanna sinna innan mjólkuriðnaðarins.
Magnús hóf störf fyrir íslenskan mjólkuriðnað mánudaginn 1. júní 1961 hjá gömlu Mjólkursamsölunni.
Þegar Magnús lítur yfir farinn veg og langan feril segir hann.
„Það segir sig sjálft að ýmislegt hefur gerst, tímarnir breyst og við með. Þegar ég hóf störf var öðruvísi umhorfs, vinnubrögð önnur og umhverfi allt annað. Síðan fór ég til náms og starfaði annars staðar en kom aftur til starfa hjá MS og Emmess ísgerðinni síðsumars 1979. Þá hafði framþróun þegar orðin mikil, bæði við uppbyggingu og hagræðingu. Sjálfsagt væri hægt að skrifa bók um það allt saman“.
Undir stjórn Magnúsar óx ísgerðinni fiskur um hrygg og var hann frumkvöðull að öflugri vöruþróun með tilheyrandi umbúðahönnun sem hann var sérfróður um.Vörutegundum fjölgaði mjög og einnig hafði Magnús næmt auga fyrir mikilvægi sölu-og markaðsmála til að efla framgang fyrirtækisins. Hann byggði upp frystibílaflotann og hóf sölu og afhendingu vörunnar beint úr bílunum.
Útilokað var að auka fjölbreytni í þessari grein án nýrra framleiðslutækja. Okkar litli markaður stóð ekki undir dýrum fjárfestingum á því sviði. Með mikilli útsjónarsemi tókst Magnúsi að tækja og tæknivæða „emmess ísgerðina“ með notuðum, endursmíðuðum ísgerðarbúnaði frá Danmörku og víðar.
Magnús starfaði hjá „emmess ís“ fram til ársins 2000 en þá tók hann við forstjórastöðu Osta-og smjörsölunnar sem stóð til ársloka 2006. Hann lét strax til sín taka á þeim vettvangi við vöru-og framþróun á ostum og viðbiti. Um árabil hefur Magnús gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir mjólkuriðnaðinn og þeim fyrirtækjum og félögum sem honum tengjast.
Árið 2007 varð Magnús aðstoðarforstjóri Mjólkursamsölunnar ehf og tók svo við forstjórastöðunni 1. janúar 2008 og jafnframt forstjórastöðu Auðhumlu sf 1. júní sama ár. Þessi síðustu ár hefur helsta verkefni Magnúsar verið að treysta stoðir sameinaðra fyrirtækja mjólkuriðnaðarins með hagræðingu í rekstri og uppstokkun verkaskiptingar í framleiðslu. Magnús gegndi stöðu forstjóra Mjólkursamsölunnar til 30. apríl 2009 og Auðhumlu til 1. febrúar 2010. 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?