Lokahátíð upplestrarkeppninnar

Stóra upplestrarkeppnin hefur verið haldin í fjöldamörg ár en verkefnið hófst á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Keppnin hefst ár hvert á þessum degi og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.Yfirlýst markmið verkefnisins er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Það bætir almennan lesskilning barna og unglinga og eflir sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum. Einnig er verkefnið hvetjandi fyrir nemendur með lestrarerfiðleika. Mjólkursamsalan er einn af styrktaraðilum keppninnar.

Lokahátíð Stóru upplestarkeppninnar í Hafnarfirði fer fram í Hafnarborg í dag kl. 17. Þar munu tveir fulltrúar úr 7. bekkjum í öllum grunnskólum í Hafnarfirði og Álftanesi vera með upplestur úr verkum Brynhildar Þórarinsdóttur og Arnar Arnarsonar.

Auk þess verða tónlistaratriði flutt á hátíðinni og kynnt úrslit í smásögusamkeppni 8.-10. bekkja í grunnskólum Hafnarfjarðar. 

Nemendur í 7. bekkjum grunnskólanna hafa frá því þann 16. nóvember sl. æft sig í flutningi íslensks máls. Þeirri æfingu lauk með lokahátíðum í hverjum skóla í lok febrúar og byrjun mars þar sem tveir fulltrúar voru valdir til að keppa á lokahátíðinni í Hafnarborg.  

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson mun verða viðstaddur keppnina.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?