Landsleikur í lestriAllir lesa

Þann 10. október nk. opnar nýr lestrarvefur, allirlesa.is, á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO. 

Í kjölfarið, þann 17. október, verður efnt til landsleiks í lestri, þar sem hópar skrá sig til leiks og lesa til sigurs. Sá tími sem keppendur verja í bóklestur er skráður á vefinn, og það lið sem ver mestum tíma í lestur að meðaltali ber sigur úr býtum. Allar bækur eru taldar með, allt frá Harry Potter til Halldórs Laxness, myndasögum til menningarstórvirkja, kennslubókum til Kardimommubæjarins.  Allir geta verið með! Fullorðnir, stelpur, strákar, hvað sem þú ert að gera og hvaðan sem þú kemur. Það skiptir engu máli hvað þú ert að lesa! Okkur finnst allar bækur vera góðar bækur. Aðalatriðið er að skemmta sér við lestur, gera lífið áhugaverðara og lesa til sigurs.


MS og Allir lesa

Mjólkursamsalan er einn af aðalstyrktaraðilum átaksins. Til að vekja athygli á átakinu og hvetja landsmenn til að lesa var ákveðið að setja mjólkurfernur í skemmtilegan búning í október. Ein hlið fernanna er í formi þekktrar bókakápu og er þar jafnframt hvatning til landsmanna að lesa.
Mjólkurfernurnar hafa löngum verið nýttar til þess að vekja athygli á íslenskuátakinu og er það miðill sem nýtist sérstaklega vel til að ná til fólks enda eru mjólkurfernum á borðum flestra landsmanna daglega.

Hér fyir neðan má sjá þær bókakápur sem munu birtast á mjólkurfernunum á meðan á átakinu stendur.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?