Beint í efni
En
Kveðja vegna andláts Guðlaugs Björgvinssonar fyrrv. forstjóra MS

Kveðja vegna andláts Guðlaugs Björgvinssonar fyrrv. forstjóra MS

Í dag er kvaddur hinstu kveðju Guðlaugur Björgvinsson, fyrrverandi forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Guðlaugur hóf störf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík 1. desember 1973 sem aðstoðarmaður forstjóra. Guðlaugur varð framkvæmdastjóri í byrjun árs 1975 og var ráðinn forstjóri Mjólkursamsölunnar frá 1. janúar 1979. Því starfi gegndi hann til ársins 2005 þegar Mjólkursamsalan og Mjólkurbú Flóamanna voru sameinuð. Frá þeim tíma starfaði Guðlaugur sem framkvæmdastjóri og í framhaldinu annaðist hann ýmis verkefni sem tengdust framkvæmd sameiningar fyrirtækjanna. Þeim viðfangsefnum sinnti hann allt þar til hann lét af störfum.

Guðlaugur átti langan og glæsilegan starfsferil hjá Mjólkursamsölunni, þar af sem forstjóri í 26 ár. Frá því Guðlaugur kom til starfa hjá fyrirtækinu sem ungur maður og allt til þess tíma er hann lét af störfum leiddi hann fyrirtækið í gegnum mikið breytingaferli. Þar má nefna uppbyggingu nýrrar starfsstöðvar fyrirtækisins á Bitruhálsi. Hann lagði mikla áherslu á ímynd fyrirtækisins og nauðsyn þess að efla vöruþróunar- og markaðshugsun innan þess. Í því verkefni var Guðlaugur bæði hvatamaður og þátttakandi, en þessir þættir voru afgerandi í þeim árangri sem Mjólkursamsalan náði á þessu sviði.

Auk forstjórastarfs Mjólkursamsölunnar gegndi Guðlaugur ýmsum trúnaðarstörfum í mjólkuriðnaði. Hann var varaformaður stjórnar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði frá stofnun þar til hann lét af störfum sem forstjóri, jafnframt var hann um skeið fulltrúi mjólkuriðnaðarins í verðlagsnefnd búvara. Í öllum þeim skipulagsbreytingum í mjólkuriðnaðinum sem fram fóru á síðari hluta starfsferils Guðlaugs kom einnig vel í ljós hversu heilsteyptur maður Guðlaugur var. Hann breytti ávallt á þann veg að heildarhagsmunir bænda og fyrirtækis þeirra, sem honum var treyst fyrir, væru í fyrirrúmi. Þó svo erfitt væri að taka ákvarðanir um breytingar og einnig erfitt að fylgja þeim eftir, þá lagði Guðlaugur alltaf gott til á þeirri vegferð og hugsaði um hagsmuni annarra. Það ber að þakka og er virðingarvert.

Nú þegar komið er að kveðjustund kallast fram margar minningar okkar samferðafólks Guðlaugs frá langri ferð – minningar um þann drenglynda og háttvísa mann sem hann var. Við vottum fjölskyldu Guðlaugs samúð okkar.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Mjólkursamsölunnar, Pálmi Vilhjálmsson