Íslenskur mjólkuriðnaður og tækifæri erlendis

Undanfarin ár hefur Íslenskur mjólkuriðnaður einbeitt sér að því að þróa og efla innanlandsmarkaðinn. Þessi stefna hefur skilað góðum árangri sem sést hvað best á því að neysla á íslenskum mjólkurvörum hefur aukist verulega á undanförnum árum. Ef horft er til tímabilsins 2002 til 2007 er ráðgert að neysla landsmanna muni jafngilda um 116 milljónum lítra af mjólk á næstu 12 mánuðum sem er aukning um 10 milljón lítra frá árinu 2002, eða um 2% aukning að meðaltali á ári.

Frá því að útflutningsbætur með mjólkurvörum voru aflagðar upp úr 1990 og teknar voru upp beingreiðslur til bænda, hefur lítil áhersla verið lögð á útflutning íslenskra mjólkurafurða. Mjólkurframleiðslan hefur miðast við innanlandsneysluna og útflutningur hefur mætt afgangi og hefur endurspeglað það ójafnvægi sem er á neyslu mjólkurfitu og mjólkurprótíns hér innanlands. Miklar vinsældir skyrs og magurra mjólkurafurða hafa orðið til þess að við seljum úr landi (árlega) smjör sem unnið er úr um 10 milljónum lítra af mjólk.

Fyrir um tveimur árum var ýtt úr vör tveimur þróunarverkefnum þar áhugi var á að skoða frekar möguleika á markaðsetningu íslenskra mjólkurafurða og sérþekkingar okkar í útlöndum. Annað verkefnið lýtur að útflutningi á skyri og ýmsum öðrum mjólkurvörum til Bandaríkjanna en hitt verkefnið er sérleyfisframleiðsla á skyri erlendis og margvísleg ráðgjöf í mjólkuriðnaði.

Útflutningsverkefnið hefur verið unnið í samvinnu við átaksverkefnið Áform sem hefur um árabil staðið að útflutningi á íslenskum landbúnaðarafurðum til Bandaríkjanna undir merkjum hollustu, hreinleika og sjálfbærrar þróunar. Kaupandi okkar vestan hafs er Whole Foods Markets sem rekur 182 verslanir um gjörvöll Bandaríkin. Mesta áherslan hefur verið lögð á skyr en fljótlega fylgdu í kjölfarið ostarnir Dímon og Höfðingi auk þess sem íslenskt smjör hefur fengið góðar viðtökur, bæði í verslunum og í stóreldhúsum Whole Foods. Gott verð fæst fyrir þessar vörur, einhver þau hæstu sem fengist hafa fyrir mjólkurafurðir á erlendis. Hátt útsöluverð frá okkur endurspeglast í útsöluverðinu en þannig kostar 170 g dós af skyri USD 2,58 eða um 175 krónur dósin, en algengt verð hérlendis er á bilinu 75 til 90 kr.

Það sem hefur skyggt á markaðsstarfið er að ekki hefur fengist næg mjólk til að fylgja eftir þeim mikla áhuga sem afurðir okkar hafa fengið hjá bandarískum neytendum. Góð og mikil framleiðsluaukning á undanförnum mánuðum er kærkomin til fyrir þennan markaði en okkar afurðir eru einungis í brot af þeim verslunum sem Whole Foods reka í Bandaríkjunum. Það er mat okkar að með marvissri markaðs- og vöruþróun megi auka verulega sölu á völdum mjólkurafurðum í Bandaríkjunum og þá sérstaklega skyri. Ekki er ólíklegt að þarna megi þróa markað fyrir allt að 7-10 milljónir lítra af mjólk sem væri kærkomin viðbót fyrir íslenska kúabændur og íslenskan mjólkuriðnað.

Þá má geta þess að nýlegur fríverslunarsamningur milli Færeyja og Íslands opnar möguleika á að selja valdar mjólkurvörur til Færeyja. Mikill áhugi er á okkar vörum meðal smásöluaðila í Færeyjum en skortur á mjólk hefur komið í veg fyrir að hægt sé að sinna þessum markaði sem skyldi.

Agrice er þekkingafyrirtæki sem er í eigu MS og nokkurra einstaklinga. Markmið félagsins er útflutningur á þekkingu. Agrice hefur þegar samið um sérleyfisvinnslu á skyri í Danmörku og Bretlandi. Þarlendir aðilar borga vinnslugjald til að fá aðgang að framleiðsluforskriftum, markaðsefni og ýmsu öðru sem tengist skyrinu okkar. This Mejeri í Danmörku reið á vaðið síðastliðið vor þegar skyr var markaðssett í verslunum Irma í Danmörku. Salan hefur gengið mun betur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá hófst nýlega skyrframleiðsla í Skotlandi hjá Kingdom Cheese sem er að fara á markað í Bretlandi. Sérleyfisvinnsla er vel þekkt í mjólkuriðnaði og þarna gefst okkur gott tækifæri á að nýta sérþekkingu okkar og koma á framfæri þeirri frábæru afurð sem skyrið okkar er.

Þá gekk Agrice nýlega frá umfangsmiklum ráðgjafasamning um hönnun og uppsetningu á um 40 milljón lítra mjólkurbúi í norðurhluta Mexíkó. Til samanburðar er MS Selfossi að taka á móti 42 milljónum lítra á ársgrunni. Þarna gefst okkur gott tækifæri til að selja sérþekkingu okkar á mjólkurvinnslu og hafa af því nokkrar tekjur.

Þessi útrásarverkefni sem eru unnin á vegum mjólkuriðnaðarins eru fyrst og fremst þróunarverkefni sem en sér ekki fyrir endann á. Íslenskur mjólkuriðnaður verður aldrei byggður á útflutningi en bæði þessi verkefni eru góð viðbót og geta aukið tekjur íslenskra mjólkurframleiðenda verulega í framtíðinni.

Guðbrandur Sigurðsson.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?