Íslenskur mjólkuriðnaður og alþjóðleg samkeppni

Íslenskur mjólkuriðnaður stendur á tímamótum. Nýlega voru kynntar hugmyndir um rekstrarfélag í mjólkuriðnaði sem myndi setja formlega umgjörð um það mikla samstarf sem átt hefur sér stað í mjólkuriðnaði á liðnum áratugum. Vöruframboð og þjónusta við markaðinn mun ekki breytast heldur frekar vaxa og batna. Aukin hagræðing við vinnslu og dreifingu mun gera okkur kleift að draga úr kostnaði sem skilar sér í lægra vöruverði til neytenda.

Íslenskur mjólkuriðnaður hefur fengið mikla vernd og hefur í skjóli hennar byggt upp öflugan og blómlegan iðnað sem veitir fjölda fólks atvinnu, sérstaklega á landsbyggðinni. Mikil hagræðing hefur orðið innan matvælaiðnaðarins á liðnum árum sem hefur skilað sér í lægra vöruverði til neytenda. Með verðstöðvun heildsölverðs mjólkur út árið 2007 mun mjólkuriðnaðurinn leggja sitt af mörkum í nýlegum tillögum ríkisstjórnarinnar sem miða að lækkuðu matvælaverði á Íslandi. Reiknuð verðhækkunarþörf iðnaðarins á tímabilinu er á bilinu 700-800 milljónir króna. Þessa upphæð mun iðnaðurinn taka á sig og hefur enga leið til að mæta því aðra en að hagræða en frekar í starfsemi sinni. Kúabændur eru um 760 þannig að segja má að hver og einn þeirra taki á sig einnar milljónar króna skerðingu í formi lægra afurðaverðs til að standa við bak ríkisstjórnarinnar við lækkun matvælaverðs í landinu.

Frekari hagræðing í mjólkuriðnaði er ekki sett til höfuðs íslenskum neytendum, langt í frá. Iðnaðurinn er fyrst og fremst að búa sig undir aukna samkeppni sem við teljum að muni koma erlendis frá. Fyrr á þessu ári stóðu vonir til þess að mikill árangur næðist í svokallaðri Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar. Þær viðræður sigldu í strand, fyrst og fremst að mati þeirra sem best til þekkja, vegna þess að Bandaríkjaforseta skorti óskorað umboð frá þinginu til að ganga til þessara samninga. Ljóst er að viðræður í þessa átt munu hefjast að nýju og gætu leitt til verulegra lækkunar tolla á landbúnaðarvörum um allan heim.

Ísland er virkur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og munu samningar af þessu tagi verða til þess að breyta verulega stöðu íslensk landbúnaðar. Þá er ljóst að margir telja að Íslendingar ættu að lækka tolla einhliða á landbúnaðarvörum til að lækka matvælaverð. Slík þróun er þegar hafin í samræmi við matvælaverðlagstillögur ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt þeim munu tollar á kjöti lækka um allt að 40% í kjölfar tvíhliða viðræðna við erlend ríki eða ríkjasambönd.

Það er mikilvægt, út frá ýmsum sjónarmiðum, að fara varlega í þessum efnum og geta miklar kollsteypur haft alvarlega afleiðingar fyrir landbúnaðinn. Eitt er þó alveg víst að tollalækkanir eru hluti af þeirri framtíðarsýn sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir. Til að mæti aukinni samkeppni er okkur mikilvægt að draga úr kostnaði og auka framleiðni sem mun skila sér í lægra heildsöluverði.

Það er fróðlegt að skoða hvernig íslenskur mjólkuriðnaður er í samanburði við það sem gerist erlendis. Mjólkuriðnaðurinn og smásöluverslunin hafa þróast í sömu átt á undanförnum áratugum. Sífellt öflugri og stærri smásöluverslanir hafa orðið til þess að mikil samþjöppun hefur átt sér stað í mjólkuriðnaði ekki einungis innan landa heldur þvert á landamæri. Öflugustu mjólkurfyrirtækin á borð við Danone eru með starfsemi um allan heim og eru réttilega alþjóðleg fyrirtæki í þeim skilningi.

Það er fróðlegt að skoða hvernig íslenskur mjólkuriðnaður er í samanburði við þessi erlendu fyrirtæki. Heildarvelta íslensks mjólkuriðnaðar á síðasta ári var um 12 milljarðar króna, tekið var á móti 113 milljónum lítra af mjólk og var heildarfjöldi starfsmanna í greininni var um 560.

Myndin hér til hliðar sýnir veltu íslensks mjólkuriðnaðar í samanburði við stærstu mjólkurfyrirtækin á Norðurlöndum og veltu mjólkurhlutans hjá franska stórfyrirtækinu Danone.

Í samanburði við frændur okkar Dani þá er velta íslensku mjólkurfyrirtækjanna tæp 4% af veltu Arla í Danmörku og ekki nema tæp 2% af veltu mjólkurrisans Danone. Þessi stóru fyrirtæki hafa öfluga vöru- og markaðsþróun en aðalsmerki þeirra er lágur framleiðslukostnaður sem fyrst og fremst má rekja til stórra og sérhæfðra framleiðslueininga.

Íslenskur mjólkuriðnaður hefur sýnt það og sannað bæði heima og erlendis að hann stendur jafnfætis stærstu fyrirtækjum hvað varðar gæði og fjölbreytileika afurða. Til að mæta stórum samkeppnisaðilum á borð við þá sem vísað er til í töflunni, þurfum við að geta sérhæft okkar litla iðnað eins og kostur er.

Guðbrandur Sigurðsson,
forstjóri MS.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?