Íslenskuátak verðlaunað

Samtök móðurmálskennara veittu Mjólkursamsölunni nýlega viðurkenningu fyrir öflugt starf í þágu íslenskrar tungu. Meðal þess sem þykir vel gert er íslenskuátakið á mjólkurfernunum og hefur það veitt mörgum kennurum innblástur í starfi sínu. Auk þess þykir ljóðavefurinn jonas.ms.is mjög vel heppnaður og nýtist hann meðal annars í kennslu.

Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins.

Auk Mjólkursamsölunnar fékk Lovísa Árnadóttir, fréttakona, viðurkenningu fyrir fallega notkun íslenskrar tungu auk þess sem hannyrðafyrirtækið Nostrum fékk viðurkenningu fyrir nafngift fyrirtækisins.

Handhafar viðurkenninga Samtaka móðurmálskennara.

Almennt um íslenskuátak Mjólkursamsölunnar:

Mjólkursamsalan hefur síðustu 15 ár beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins og er kjörorðið í þeirri vinnu „Íslenska er okkar mál“. Mjólkursamsalan leggur málvernd lið með ýmsu móti, bæði með beinum fjárframlögum sem og styrkjum til verkefna á borð við Dag íslenskrar tungu. Auk þess hefur Mjólkursamsalan átt gott samstarf við Íslenska málnefnd þar sem markmiðið er að örva umræðu um íslenskt mál og efla þekkingu á því. Um árabil hafa verið birtir textar af ýmsu tagi á mjólkurumbúðunum; ábendingar um gott málfar, útskýringar á orðtökum, Fernuflug með örsögum og ljóðum eftir grunn- og framhaldsskólanema svo að fátt eitt sé nefnt. Hægt er að nálgast alla texta af mjólkurfernunum á ms.is. Mjólkursamsalan hefur einnig unnið að sérstökum verkefnum á borð við ljóðavefinn jonas.ms.is og var hann unninn í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Vefurinn hefur að geyma stærsta safn náttúruljóða á Íslandi og markaði hann tímamót í því hvernig hægt er að nálgast fróðleik um íslenskar bókmenntir og náttúru á lifandi og myndrænan hátt. 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?