Íslensku markaðsverðlaunin 2012

Markaðsfyrirtæki ársins 2012 er Marel og markaðsmaður ársins 2012 er Liv Bergþórsdóttir hjá Nova.

Árlega veitir ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks, einu fyrirtæki hérlendis verðlaun fyrir markaðsstarf sitt. Verðlaunin sem nú fagna 22 ára afmæli sínu, eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsstarfi sínu á líðandi ári og sannað þykir að starfið hafi skilað sýnilegum árangri. Verðlaunaafhendingin fór fram á Hilton Reykjavík Nordica fyrr í dag (8. nóvember).
Auk Marel voru Mjólkursamsalan og Ölgerðin tilnefnd til Íslensku Markaðsverðlaunanna. Þessi fyrirtæki hafa sýnt frábæran árangur hvert á sínu sviði og mjög faglegt markaðsstarf.
Dómnefnd á markaðsfyrirtæki ársins skipa fulltrúar úr stjórn ÍMARK, háskólasamfélaginu og atvinnulífinu ásamt fulltrúa frá markaðsfyrirtæki síðasta árs. Í fyrra var það Icelandair sem hlaut Markaðsverðlaunin 2011 en á undanförnum árum hafa m.a. Borgarleikhúsið, Nova, Össur hlotið verðlaunin.
Verðlaunahafinn Marel er fyrirtæki sem vart þarf að kynna fyrir íslenskri þjóð þó svo að aðeins lítill hluti starfseminnar fari fram hér á landi. Margir hafa fengið tækifæri til að fylgjast með vexti og viðgangi þessa fyrirtækis en Marel starfrækir nú skrifstofur í 30 löndum og er með umboðsmenn í yfir 100 löndum. Mjólkursamsalan óskar Marel til hamingju með verðlaunin.

Mjólkursamsalan er stolt af  tilnefningunni og að vera eitt af  þremur fremstu fyrirtækjum landsins í markaðsmálum árið 2012. Tilnefningin er mikil viðurkenning fyrir það starf sem unnið hefur verið hjá MS á sviði markaðsmála og vöruþróunar og þessi tilnefning ein og sér er stórsigur fyrir félagið og vísbending um að við séum á réttri leið.  
Viðurkenningin kom til eftir strangt ferli þar sem mikill fjöldi fyrirtækja fór í gegnum þröngt nálarauga valnefndar. En fyrst og síðast byggir þessi tilnefning á nokkrum veigamiklum þáttum í starfsemi Mjólkursamsölunnar um allt land. 
Árangur MS er grundvallaður á þeirri miklu þekkingu og reynslu sem er hvarvetna í framleiðslunni hjá okkur.  Hann byggir á þeim mikla áhuga og þátttöku af öllum sviðum í vöruþróunarferli félagsins. Söluárangur okkar byggir svo vitaskuld á þeirri öflugu dreifingu sem við höfum um allt land.  Síðast en ekki síst byggir árangurinn og tilnefningin á mjög markvissri og faglegri vinnu í vöruþróun og markaðsstarfi.  
Það er vert að óska öllum sem komu að hinum fjölmörgu verkefnum sem byggðu upp þennan árangur til hamingju.  Þessi árangur byggir á mikilli og markvissri vinnu vöruþróunar og markaðsfólks og hún byggir á traustum innviðum og þekkingu á öllum sviðum fyrirtækisins.   
 
Tilnefning til Íslensku markaðsverðlaunanna 2012. Ingólfur Örn Guðmundsson yfirmaður markaðsmála hjá Marel, Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar, Einar Sigurðsson forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?