Íslenskt skyr sigursælt á mjólkursýningu í Herning í Danmörku

Íslenskt skyr og mjólkurvörur frá MS voru einstaklega sigursælar nú í vikunni þegar þær unnu til fjölda verðlauna á International food contest í Herning í Danmörku. Samtals hlutu mjólkurvörur frá MS 31 verðlaun í keppninni: Tvenn heiðursverðlaun, þrenn gullverðlaun, tíu silfurverðlaun og 16 bronsverðlaun. Tvenn verðlaunanna féllu í skaut vara sem seldar eru undir merkjum Icelandic Provisions á Bandaríkjamarkaði en þær eru framleiddar af MS og fluttar út til samstarfsaðila MS í Bandaríkjunum.

Keppt var í sérstökum skyrflokki fjórða árið í röð og hefur íslenskt skyr frá MS sigrað í flokknum frá upphafi. Skyr frá MS vann til sjö verðlauna í flokknum og hlaut Skyr með bláberjum flest stig með einkunnina 14,36 af 15 mögulegum. Íslenska skyrið var sérstaklega sigursælt og atti það m.a. kappi við skyr frá Arla.

Að sögn Guðnýjar Steinsdóttur, markaðsstjóra MS, hefur gengi mjólkurvara frá MS í keppninni verið frá upphafi gott: „Við erum mjög stolt af gengi varanna okkar í keppninni og þá sérstaklega góðu gengi íslenska skyrsins. Íslenska skyrið vekur athygli hvar sem er enda er það einstök íslensk mjólkurvara með 1000 ára sögu,” segir Guðný og bætir við að þetta sé jafnframt mikil viðurkenning fyrir íslenskt fagfólk í mjólkuriðnaði.  

Ágúst Þór Jónsson, mjólkurfræðingur hjá MS Selfossi og Björn Baldursson, mjólkurbússtjóri hjá MS Selfossi taka við verðlaunum fyrir íslenska skyrið. 

Fulltrúar MS á Herning voru að vonum ánægðir með árangurinn.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?