Íslenskar mjólkurafurðir sigursælar á vörusýningu í Danmörku

ÍSLENSKAR mjólkurafurðir hafa verið sigursælar á stórri vörusýningu í Herning í Danmörku sem stendur nú yfir. Íslenskir mjólkuriðnaðarmenn hafa fengið 11 gullverðlaun fyrir afurðir sínar og þrenn heiðursverðlaun að auki sem veitt verða í dag fyrir Dalabrie frá Mjólkursamlaginu í Búðardal og Biomjólk með mangó og apríkósu og Bioþykkmjólk með 6 kornum og ferskjum, en hvor tveggja er frá Mjólkurbúi Flóamanna.
Íslenskir ostar hlutu 31 verðlaun, þar af 7 gullverðlaun, 9 silfur- og 15 bronsverðlaun. Þá fengu 29 ferskar mjólkurvörur verðlaun, þar af 4 gull, 13 silfur og 12 brons. Alls sendu Íslendingar inn 213 sýnishorn af 1.500 innsendum sýnishornum frá Norðurlöndunum utan Finnlands sem ekki tekur þátt.

Að sögn Magnúsar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Osta- og smjörsölunnar, telst þetta ágætisárangur og eru Íslendingarnir sáttir við útkomuna. Er þetta í sjötta sinn sem Íslendingar taka þátt í vörusýningunni en síðast tóku þeir þátt árið 2001 og unnu þá alls 64 verðlaun auk tvennra heiðursverðlauna.

„Umgjörð sýningarinnar er mjög glæsileg og greinilega mikill áhugi fyrir henni í ljósi fjölmennis hér,“ segir Magnús. „Þetta er í fyrsta skipti sem sýningin hefur skandinavískt yfirbragð, en þeir einu sem ekki eru með eru Finnar.“ Íslendingar voru fyrsta frændþjóð Dana til að taka þátt í sýningunni en síðan fylgdu Svíar í kjölfarið, Norðmenn og loks Færeyingar sem taka þátt í fyrsta skipti.

Meðal nýjunga á sýningunni er matarrjómi með hveiti sem ætlaður er til sósugerðar. Jóakim prins, yngri sonur Margrétar Þórhildar Danadrottningar, heiðraði þátttakendur í gærmorgun með nærveru sinni og setti mjög skemmtilegan svip á samkunduna.

Morgunblaðið. 12. nóvember, 2003.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?