Ísey skyr tekur þátt í verkefni á vegum Íslandsstofu

 

Íslandsstofa hrindir í dag, 8. mars, af stað herferð í tengslum við heimsmeistaramótið í fótbolta sem fram fer í sumar. Um er að ræða samstarfsverkefni Íslandsstofu og fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með það að markmiði að vekja athygli á Íslandi og því sem landið hefur upp á að bjóða. Yfirskrift verkefnisins er Team Iceland og er nær það bæði til heimamarkaðar sem og valinna áherslumarkaða erlendis. Með þátttöku eru bundnar vonir við að auka sýnileika Ísey skyrs á þeim mörkuðum sem íslenska skyrið er selt á.

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Elisa Reid hafa nú ýtt herferðinni úr vör og gera það með skemmtilegum hætti á heimasíðu verkefnisins teamiceland.com. Fólk er hvatt til að taka þátt og ganga í stuðningsmannalið íslenska landsliðsins en það er nokkuð ljóst að búast má við fjölbreyttu og lifandi efni á samfélagsmiðlum á komandi misserum. Áhugasamir geta jafnframt fylgst með myllumerkinu #teamiceland og tekið þátt í umræðunni sem þar fer fram.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá forsetahjónin kynna verkefnið og hvetja stuðningsmenn íslenska landslið um allan heim til að slást í hópinn.

 

Um verkefnið: 
Með frammistöðu sinni á EM í knattspyrnu karla 2016 komst Ísland í hámæli. Leitarfyrirspurnir um landið ruku upp í tengslum við áfangastaðinn og yfir 150 þúsund blaðagreinar voru skrifaðar um íslenska knattspyrnu, land og þjóð á meðan mótinu stóð. 

Íslandsstofa vinnur nú að því að ýta úr vör tímamóta markaðs- og kynningarverkefni, sem á að nýta þann mikla meðbyr sem líklegt er að landið njóti í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Við höfum lært að athyglin verður ekki bara á knattspyrnuliðinu heldur einnig á þessu litla landi sem komst þangað. Spurningunum rignir yfir – s.s. hvernig tókst ykkur þetta, hver eru þið, hvað standið þið fyrir, hvernig ferðamannastaður er Ísland, hvað seljið þið? Við höfum þarna tækifæri til þess að koma okkar skilaboðum á framfæri og skapa fókus fyrir kynningu á landi og þjóð.

Verkefnið verður unnið undir merkjum Inspired by Iceland og keyrt á völdum mörkuðum í samráði við helstu hagsmunaaðila og stjórnvöld. Tilgangurinn er að auka vitund um Ísland sem góðan stað til þess að heimsækja, sem uppruna gæða í matvælum, vörum og framleiðslu og tilvalinn stað til að fjárfesta og stunda viðskipti. Ætlunin er að nýta þær öflugu boðleiðir sem Íslandsstofa hefur unnið að síðustu ár s.s. með almannatengslum, fjölmiðaferðum, samfélagsmiðlum, auglýsingum, sýningum og viðskiptasendinefndum og tengslastarfi.

Það er mikill ávinningur af því að íslensk fyrirtæki og stjórnvöld vinni saman að því að styrkja ímynd og orðspor Íslands. Þannig næst slagkraftur í samkeppni við aðrar þjóðir og tækifæri til markvissrar markaðssóknar gagnvart markhópi sem sýnir Íslandi áhuga.

 

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?