Ísey skyr skákhátíð


Ísey skyr skákhátíðin fer fram á Selfossi dagana 19.-29. nóvember, en eins og nafnið gefur til kynna er Mjólkursamsalan stoltur styrktaraðili hátíðarinnar. Aðalviðburður hátíðarinnar er skákmót tíu heimsmeistara, karla og kvenna, en allir þátttakendur hafa orðið heimsmeistarar í skák í einhverjum flokki. Í hópnum eru þrír íslenskir heimsmeistarar og sjö erlendir. Íslensku keppendurnir eru þeir Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Helgi Áss Grétarsson. Meðal erlendu keppendanna eru ungu skákkonurnar Dinara Saduakassova frá Kasakstan og Sarasadat Khademalsharieh frá Íran en þær eru taldar meðal bestu skákkvenna í heimi.

Hátíðin var sett á glæsilegan hátt degi fyrir mót, þann 18. nóvember og hélt Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, m.a. mikla hvatningarræðu til skákhreyfingarnar. Þá var dregið um töfluröð leikjanna og voru númer keppenda geymd í Ísey skyrdósum, sem var sérstaklega viðeigandi.

Á Ísey skyr skákhátíðinni verður einnig haldið opna Suðurlandsmótið í skák, barna- og unglingaskákmót, Fischer-slembiskákmót, raðskákmót og fjöltefli, auk málþings um stöðu skákíþróttarinnar á Íslandi. Það er engin tilviljun að skákhátíðin sé haldin á Selfossi, en þar er starfrækt safnið Fischer-setrið en markmið þess er að halda á lofti minningu skákmeistarans Bobby Fischer sem tengdist Íslandi miklum vináttuböndum eftir einvígi sitt við Boris Spassky í Reykjavík árið 1972.

Nánari upplýsingar og frekari fréttir má finna á vef Skáksambands Íslands, skak.is

 

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?