ÍSEY: Nýtt alþjóðlegt vörumerki í skyri

Eins og við höfum greint frá kynnti Mjólkursamsalan fyrir fáeinum dögum nýtt alþjóðlegt vörumerki í skyri, ÍSEY skyr, og eru hér frekari upplýsingar um nýja merkið. Gert er ráð fyrir að þetta vörumerki verði tekið upp hérlendis og á öðrum mörkuðum á þessu ári.

Mikilvægt er að byggja upp vörumerki í skyri en vörumerki gefa fyrirtækjum kost á því að skapa sér sérstöðu og aðgreiningu frá keppinautum. Vörumerkið ÍSEY skyr gefur fyrirtækinu einnig kost á að segja enn betur söguna á bak við skyrið og ná til neytenda á jákvæðan og áhugaverðan hátt. Enn fremur hjálpar þetta til að samræma skilaboð til neytenda í mismunandi löndum og auðkenna ÍSEY skyr sem skyrið sem er upprunnið frá Íslandi.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga við uppbyggingu vörumerkja og val á nafni er eitt af því sem skiptir miklu máli, sérstaklega þegar um er að ræða vörumerki sem á að ná til neytenda í mismunandi löndum þar sem tungumál og menning eru ólík.

Þegar lagt var af stað í þá vegferð að velja nafnið og byggja upp vörumerki var mikilvægt að hafa ýmis atriði í huga:

1. Í fyrsta lagi þá var það skýrt frá byrjun að það þurfti að halda sterkri tengingu við Ísland og styrkja enn frekar tenginguna sem skyr hefur við landið. MS er mjög stolt af íslenskum uppruna skyrsins og það er í raun og veru alveg stórmerkilegt að skyrið, sem á sér yfir 1000 ára sögu á Íslandi, skuli eiga jafnmikið erindi við neytendur nú til dags eins og fyrir 1000 árum. Nafnið þurfti því að endurspeglaða þennan íslenska bakgrunn skyrsins og sögu skyrs á Íslandi.

2. Í öðru lagi vildi fyrirtækið heiðra íslenskar konur með nafngiftinni. Rannsóknir hafa sýnt að það voru íslenskar konur sem sáu um skyrgerðina á bæjum landsins í gegnum aldirnar og þekking á skyrgerð á íslenskum heimilum erfðist frá móður til dóttur.

3. Í þriðja lagi skiptir nafnið sjálft máli. Það var ákveðið að hafa séríslenskan staf í nafninu til að styrkja enn frekar tengslin við Ísland en á sama tíma þurfti nafnið að vera þannig að hægt sé að bera það fram á mismunandi tungumálum. Þá var einnig lagt upp með að nýja nafnið væri stutt og einfalt. 

Eftir mikla vinnu og rannsóknir var komist að þeirri niðurstöðu að nafnið ætti að vera ÍSEY og er fyrirtækið mjög stolt af þessu nafni. Þetta nafn getur táknað Ísland – þ.e. ÍS og EY auk þess að vera íslenskt kvenmannsnafn. Ekki skemmir fyrir að nafnið er stutt, einfalt og fallegt og hægt að bera það fram á mismunandi tungumálum.

Umbúðirnar verða að öðru leyti svipaðar og áður. Íslensk fjöll í bakgrunni, vörður með ávöxtum og hvítur litur ríkjandi, sem táknar bæði snjó og mjólk. 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?