Hvatt til þess að velja íslenskt

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, opnuðu í morgun landsátakið Veljum íslenskt – og allir vinna. Að átakinu standa Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess og Bændasamtök Íslands og aðildarfélög þeirra. Markmið átaksins er að vekja forráðamenn fyrirtækja og stofnana og almenning til vitundar um mikilvægi íslenskrar framleiðslu fyrir atvinnu- og verðmætasköpun í landinu.

Í tilkynningu frá átakinu segir, að Valgerður hafi við þetta tækifæri sagt að hugtakið vald kæmi upp í hugann. Ekki stjórnvald heldur það vald sem neytendur hefðu þegar þeir kaupa vöru eða þjónustu. Guðni sagði þessa morgunstund gefa gull í mund. Hann fagnaði samstarfi þeirra aðila sem að átakinu standa og sagðist vona að samstarfið skilaði sér í bættum lífskjörum öllum til handa.

Ríflega 20% verðmætasköpunar í landinu má rekja til íslensks iðnaðar, fimmtungur útflutningstekna landsmanna koma frá iðnaði og þar vinnur um fimmtungur vinnufærra manna. Samstarfsaðilar átaksins segjast sammála um að með því að velja íslenska framleiðslu sé styrkari stoðum rennt undir atvinnustarfsemi í landinu. Á tímum varanlegs atvinnuleysis, þar sem um 5 þúsund vinnufærir einstaklingar séu án atvinnu, sé afar brýnt að stuðla að fjölgun starfa.

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir aðstandendur átaksins biðja almenning, fyrirtæki og stofnanir um að hafa í huga að það skipti máli hvort innlend framleiðsla sé valin fram yfir innflutta, bæði til hagsbóta fyrir atvinnustig í landinu og tekjur þjóðarbúsins.

Íslenskir dagar í matvöru- og sérverslunum setja sterkan svip á átakið en samið hefur verið um Íslenska daga í verslunum Hagkaupa, Fjarðarkaups, Samkaupa og Nóatúns.

 

Fréttavefur Morgunblaðsins (mbl.is). 24. ágúst 2004. (Textinn)

Ljósmyndir: Guðjón Reynir Jóhannesson.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?