Hollt mataræði fyrir heilbrigð bein

Í dag, 20. október, er Alþjóðlegi beinverndardagurinn og í ár er athyglinni beint að næringunni sem beinin þurfa til að þroskast og viðhalda styrk sínum allt frá fæðingu. Á barnsaldri og fram á unglingsár er vöxtur beina hvað mestur og þessi mikilvægi tími hefur áhrif á hversu sterk og þétt beinin verða. Það sem við leggjum inn í „beinabankann“ í æsku þarf að duga okkur út lífið en um miðjan aldur gerir sjúkdómurinn beinþynning vart við sig hjá fjölda fólks. Beinþynning er sjúkdómur í beinum sem veldur því að beinmassinn minnkar og misröðun verður í innri byggingu beinsins sem leiðir til aukinnar hættu á beinbrotum. Beinþynning verður þegar beinmagnið minnkar hraðar en líkaminn endurnýjar það.

Lengi býr að fyrstu gerð
Verðandi mæður og mæður með börn á brjósti þurfa t.a.m. að hugsa vel um næringu fyrir sig og ófædd börn sín til að tryggja að börnin þroskist eðlilega og þær viðhaldi beinþéttni sinni. Engin þörf er á einhverju sérfæði heldur er lykilatriði að velja fjölbreytta og holla fæðu. Eitt er þó vert að nefna að kalkþörf móður eykst á meðgöngu og til að kalkið nýtist er nauðsynlegt að taka D-vítamín. D-vítamínskortur móður getur haft áhrif á beinþroska barnsins og því mikilvægt að huga að þessu. Þó að erfðir skipti miklu máli þegar litið er til vaxtar beina hjá börnum er ekki síður nauðsynlegt að hugsa vel um næringu barnanna í uppvexti þeirra og möguleika þeirra til að hreyfa sig. Börn þurfa fjölbreytta fæðu sem tryggir þeim kalk, D-vítamín og prótein. Mjólk og mjólkurvörur eru góðir kalkgjafar en einnig dökkt, grænt blaðgrænmeti, sumar baunir, hnetur og fræ auk kalkbættra matvæla. D-vítamín fáum við frá útfjólubláum geislum sólarinnar en þegar hennar nýtur ekki við er þörf á að taka vítamínið inn. Algengustu próteingjafarnir eru kjöt, fiskur, mjólkurvörur, egg, baunir, hnetur og gróft korn.

Holl fæða og heilbrigður lífsstíll
Mikilvægi hollrar og góðrar fæðu, sem og hreyfingar, skiptir máli á öllum aldri en sérstaklega í upphafi ævinnar, þegar beinin eru að vaxa og þéttast og á efri árum er þau eru oft á tíðum orðin brothætt. Byggjum beinin upp með góðum venjum út lífið og reynum þannig allt hvað við getum til að forðast áhættuna á beinbrotum og beinþynningu.

Nánari upplýsingar má finna á vef Beinverndar http://www.beinvernd.is

 

 

 

 

 

 

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?