Heimsókn til bændanna okkar

Við hjá Mjólkursamsölunni erum gríðarlega stolt af eigendum okkar, kúabænum og fjölskyldum þeirra um allt land, en þessi hópur vinnur hörðum höndum að því að færa okkur holla, hreina, næringarríka og bragðgóða íslenska mjólk. Okkur langar að skyggnast inn í líf bændanna okkar, kynnast þeim betur og gefa ykkur innsýn í líf fólksins sem stendur að baki þeirra fjölmörgu vara sem Mjólkursamsalan framleiðir úr mjólkinni þeirra. Við erum stolt af þeirri miklu vinnu sem liggur að baki hvers mjólkurlítra og berum virðingu fyrir kraftmiklu starfi íslenskra bænda.

Birna Þorsteinsdóttir er fyrsti bóndinn sem við heimsækjum en hún er kúabóndi á Reykjum í Árnessýslu. Birna ólst upp í sveit þar sem rekið var blandað bú og dreymdi alltaf um að verða bóndi en gat því miður ekki tekið við búi foreldra sinna. 23 ára keypti hún jörð með þáverandi manni sínum en í dag býr hún með núverandi eiginmanni og fjölskyldu á Reykjum, þar sem hann er fæddur og uppalinn. Á Reykjum eru 70 kýr og fá þær allar nafn við fæðingu að sögn Birnu, en í allt eru gripirnir 190 talsins, naut og kálfar á öllum aldri.


Birna ásamt eiginmanni og einu af barnabörnunum sínum.

Við báðum Birnu að lýsa hefðbundnum degi fyrir okkur en auðvitað eru engir tveir dagar eins. „Ég vakna og fer út í fjós til að athuga með kýrnar, hvort þær hafi allar látið mjólka sig nýlega, en oft þarf að reka tvær til fjórar í mjaltaþjóninn til mjalta. Svo er nóg að þrífa og mikill tími fer í þrif. Það þarf að þrífa bása, mjaltaþjóninn, gólfin og fleira,” segir Birna. „Næst skoða ég í tölvunni hvort nokkur sé að yxna eða hafi skilið eftir kjarnfóður og athuga hvort nokkur sé að fara að bera, en þá þarf að reka hana inní sjúkrastíu. Svo þarf að gefa geldneytunum hey og kjarnfóður þeim sem það fá, og kannski er hjá okkur nýfæddur kálfur sem þarf þá að gefa úr pela,” bætir Birna við. Kýrnar fá hey úr rúllum og kjarnfóður yfir vetrartímann og á sumrin fara þær út í 2-4 klst. á dag og bíta þá gras að auki. Kúnum finnst öllum gaman að fara út á sumrin og sumar elska að láta strjúka sér og klóra. En störfin eru ekki þar með upptalin því það þarf að gæta þess að mjólkurkýrnar hafi nóg hey og því þarf reglulega að setja heyrúllur hjá þeim. Stundum fá bændur heimsókn frá dýralækni til að líta á veika kú eða til að fangskoða kýrnar og þá þarf að sinna honum. Á Reykjum eru líka hænur og þeim þarf að gefa daglega og hleypa út ef veður er gott. „Ég þarf svo auðvitað að sinna hefðbundnum húsverkum eins og eldamennsku, þrifum og þvotti,” segir Birna og bætir við að svo taki við tölvuvinna þar sem reikningar eru greiddir og skráð í kúaskýrsluna, en í henni er haldið utan um hvað kýrnar hafa mjólkað mikið að meðaltali síðasta mánuðinn og eins eru nýfæddir kálfar skráðir sérstaklega. „Á sumrin fer ég stundum út á fjórhjólinu og geri við girðingar en yfir vetrartímann reyni ég að gefa mér tíma fyrir góða göngutúra. Eins þarf reglulega að skreppa á Selfoss og versla inn fyrir heimilið og býlið og stundum kíki ég í smá reiðtúr,” segir Birna.

Birna hefur mikla reynslu af búskap og -störfum og hefur fylgst með mikilli þróun í starfsgreininni á síðustu áratugum. Búin eru orðin stærri og þau hafa fleiri gripi en áður sem mjólka mun meira hver og einn. Vinnan er léttari í dag en áður og má það þakka þeirri miklu tæknivæðingu sem hefur orðið. Heyskapurinn tekur orðið mun styttri tíma þökk sé stórum og afkastamiklum vélum og eins er með gjafir og mjaltir, þar sem mikil bylting var að fá mjaltaþjóninn. „Bændur eru almennt meira menntaðir en þeir voru og mjög algengt er að konurnar vinni utan búsins. En bindingin er alltaf sú sama því kýrnar þurfa mikið eftirlit,” segir Birna.

Að lokum spurðum við Birnu hvað væri það ánægjulegasta við starf kúabóndans og var hún fljót að svara því, „Að sjá kýrnar bera fallegum og heilbrigðum kvígukálfi.“

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?