Heilsuprótein ehf. vígir nýja verksmiðju í Skagafirði

Heilsuprótein ehf., verksmiðja í sameiginlegri eigu MS og Kaupfélags Skagfirðinga, var vígð sl. laugardag á Sauðárkróki að viðstöddu fjölmenni. Markar opnun hennar tímamót í umhverfismálum mjólkuriðnaðarins á Íslandi en þar verður unnið hágæða próteinduft úr mysunni sem fellur til við ostagerð fyrirtækjanna og runnið hefur til sjávar fram að þessu. Síðari áfangi verksmiðjunnar, sem vonast er til að komist í gagnið eigi síðar en á árinu 2019, mun vinna etanól (alkóhól) úr mjólkursykrinum í mysunni. Eftir síðari áfangann mun einungis hreint vatn renna til sjávar úr ostasamlögunum á Norður- og Austurlandi.

Ari Edwald, forstjóri MS og stjórnarformaður Heilsupróteins sagði í ræðu sinni gesti á vígsluathöfninni vera vitni að „ný­sköp­un, auk­inni verðmæta­sköp­un úr þeim hrá­efn­um sem eru til staðar og risa­stóru skrefi í um­hverf­is­mál­um.“   

Í dag fara um 60.000.000 lítrar af mjólk í ostagerð frá fyrirtækjunum, 10% verða ostur en 90% mysa - áður fóru því 54.000.000 lítrar af mysu út í sjó en verða núna að próteindufti og með seinni áfanga einnig að alkóhóli. 

Fyrrverandi og núverandi ráðherrar umhverfis og landbúnaðarmála tóku þátt í vígslunni með því að draga tjald frá inngangi í verksmiðjuna. Þá hélt Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra ræðu við tilefnið og sagði meðal annars „Það sem áður var umhverfisverkefni hefur nú orðið að verðmætasköpun.  Verðmætasköpun sem ekki hefði orðið af ef hvert og eitt vinnslufyrirtæki hefði staðið frammi fyrir slíku.  Þarna var vandamáli breytt í tækifæri. Vígsla á Próteinverksmiðju á Sauðárkróki er því merkilegur vitnisburður um nýsköpun á sviði umhverfismála, nýsköpun til að auka verðmæti og skapa atvinnu.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?