Glæsileg verðlaun dregin út í nýyrðasamkeppni MS

Nýyrðin ásamt rökstuðningi flæða inn á heimasíðu Mjólkursamsölunnar !

VINABÓK, SÍMLÚS, SNJÁLDURSKINNA, FANGA, HEILAPLOKK, BÓKHLAÐA, LOKALOK, MELUR, SKILMÖRK, NÁLÍNA, SMETTISKJÓÐA, HALI, GADDUR, KJÖLTUVÉL, BÓKARSPJALD, ÞANKASKÚR, OPINGÁTT........

„Við getum ekki bætt við vinum sem við þegar eigum, við getum ekki snarað fólk til að vera vinir manns og sögnin að vina er einfaldlega bjánaleg. Að tengjast kemst næst þessu“, segir Hallur Guðmundsson sem telur orðin adda, snara og vina ekki koma til greina. Þau orð og fjölmörg önnur, voru sett fram sem tillaga að nýyrðum í nýyrðasamkeppni á heimasíðu Mjólkursamsölunnar. Hallur hefur skýrar skoðanir á nýyrðum enda sendi hann inn nokkrar ágætar tillögur ásamt rökstuðningi. Þátttaka hans bar árangur því hann hlaut fyrsta vinning í keppninni, glæsilega lestölvu sem MS afhenti honum nú í vikunni. (sjá mynd)


„Orðið papparass(i) finnst mér ekki hljóma mjög vel og hefur enga tengingu við hugtakið sem á að lýsa. Glansmyndari lýsir manni sem myndar, með tilvísun í glans, en mörg glamúr og slúðurtímarit glansa og því hefur orðið tilvísun á mann sem myndar fyrir glamúr- eða slúðurtímarit“, segir Elvar Helgason „ þegar hann rökstyður orðið Glansmyndari.

Veruleikaþáttur er betra orð að því leyti að það er skapaður veruleiki og fer þátturinn fram í honum. Þessi veruleiki er yfirleitt langt frá raunveruleikanum og því er raunveruleikaþáttur ekki rétt heiti. Það er líka óþarflega langt orð segir Kári Waage um orðið raunveruleikaþáttur.

Nostalgía felur ekki endilega í sér þrá eftir fortíðinni, eða afturhvarf til hennar eins og þáþrá kynni að bera með sér. Frekar mætti tala um að sjá liðna tíma í einhverskonar ljóma, jafnvel óraunhæfri mynd. Ennfremur virkar þáþrá óþjált og staglkennt, hvort sem maður segir það eða skrifar á lyklaborð“ segir Arnaldur Grétarsson og velur frekar orðið fortíðarljómi.

Mörg þúsund nýyrði hafa borist Mjólkursamsölunni frá landsmönnum undanfarnar vikur. Á heimasíðu MS er að finna fjöldann allan af nýyrðum og geta notendur kosið uppáhaldsnýyrðin og komið með ábendingar um önnur nýyrði. Það hefur ekki staðið á áhuga fyrir nýyrðasmíðum en í málræktarátaki Mjólkursamsölunnar sem gefið hefur að líta á mjólkurfernum landsmanna er á gamansaman hátt fjallað um nýyrði í íslensku.
Dregið var úr öllum innsendum hugmyndum á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember s.l. Nöfn vinningshafanna eru birt á heimasíðunni MS.is en glæsileg verðlaun voru í boði. Lestölvu (Ipad) hlaut Hallur Guðmundsson sem fyrr segir og tíu aðilar hlutu íslenska orðabók í vinning.
Nýyrðaátakinu er hvergi nærri lokið. Hvað er tónhlaða, hlaðvarp, flugdógur, tilberi eða hakkari ? Þessum spurningum og mörgum öðrum verður áfram velt upp á mjólkurfernum landsmanna á næstu mánuðum.
Mjólkursamsalan hvetur landsmenn til að nota íslensk orð í stað erlendra og vekur áfram áhuga á nýyrðasmíðum á heimasíðu sinni, www.ms.isMynd:  Hallur Guðmundsson, vinningshafi fyrstu verðlaun

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?