Fréttatilkynning frá MS

Vegna staðhæfinga sem komið hafa fram í fréttum þess efnis að Mjólkursamsalan ehf. sé ekki afurðastöð í skilningi búvörulaga og megi því ekki vinna með öðrum afurðastöðvum, vill Mjólkursamsalan koma eftirfarandi á framfæri:

Ítrekað hefur verið fjallað um fyrirtækið af stjórnvöldum á þeim grundvelli að það sé afurðastöð, enda hefur það öll tilskilin leyfi til slíkrar starfsemi.

Mjólkursamsalan hefur óskað eftir því að Lögmannsstofan LEX vinni lögfræðilega úttekt á stöðu félagsins og megin niðurstöður hennar eru eftirfarandi:

Skv. 2. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (hér nefnd búvörulög) er afurðastöð hver sú atvinnustarfsemi lögaðila eða einstaklings sem tekur við búvörum úr höndum framleiðenda til vinnslu, flokkunar, pökkunar, geymslu, heildsölu og/eða dreifingar.

Mjólkursamsalan ehf. er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og er í eigu um 650 kúabænda um land allt. Hlutverk félagsins er að taka á móti mjólk frá eigendum sínum og umbreyta í hollar og góðar mjólkurafurðir í takt við þarfir íslenskra neytenda. Félagið heldur úti öflugu dreifingarkerfi sem tryggir nánast öllum landsmönnum reglulegan aðgang að ferskum mjólkurvörum. Að mati LEX er ekki nokkur vafi um að Mjólkursamsalan ehf. telst vera afurðastöð í skilningi 2. gr. búvörulaga, enda tekur Mjólkursamsalan ehf. við mjólk úr höndum framleiðenda til vinnslu, flokkunar, pökkunar, geymslu, heildsölu og dreifingar.

Þá liggur ljóst fyrir að hvort tveggja þau stjórnvöld sem fara með framkvæmd búvörulaga og Samkeppniseftirlitið telja Mjólkursamsöluna ehf. vera afurðastöð í skilningi þeirra. Í því sambandi nægir að vísa til þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 26/2014,, segir orðrétt: „Af framansögðu leiðir að Auðhumla, MS og KS teljast afurðastöðvar í skilningi búvörulaga „

Loks starfar Mjólkursamsalan ehf. á grundvelli afurðastöðvaleyfis frá Matvælastofnun og lýtur eftirliti stofnunarinnar sem slík. Að mati LEX stenst það ekki nokkra skoðun að halda því fram að Mjólkursamsalan ehf. sé ekki afurðastöð í skilningi búvörulaga.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?