Forsetahjónin í heimsókn í Mjólkursamsölunni

Gleymum ekki arfleiðinni – stöndum saman

Starfsfólki Mjólkursamsölunnar var mikill heiður sýndur þriðjudaginn 13. október þegar forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaief komu í heimsókn í aðalstöðvar Mjólkursamsölunnar á Bitruhálsi. Heimsókn forsetans var liður í vettvangsheimsóknum hans til fyrirtækja og stofnana undir yfirskriftinni „Treystum undirstöðurnar – Stöndum saman”.

Áður en forsetinn ávarpaði starfsfólk Mjólkursamsölunnar átti hann stuttan fund með stjórnendum fyrirtækisins þar sem nýjustu afurðir MS voru kynntar fyrir forsetahjónunum. Hjónin gáfu sér góðan tíma til þess að smakka á framleiðsluvörunum og lýstu bæði yfir mikilli ánægju með gæði vörunnar og þá stefnu MS að draga úr sykurinnihaldi mjólkurvara.

Í upphafi máls síns, á fundi með starfsmönnum MS, sagði Ólafur að í hvert skipti sem hann kynnti íslenskar mjólkurafurðir fyrir erlendum gestum þætti þeim með ólíkindum hvað Íslendingar stæðu framarlega í vöruþróun og framleiðslu mjólkurafurða. Hann sagði mjólkurvörurnar það góðar að það sem Dorrit hrifist fyrst af á íslandi, fyrir utan hann, hafi verið íslenska skyrið!

Vettvangsheimsóknir forsetans eru vegna þeirra miklu erfiðleika sem þjóðin stendur frammi fyrir um þessar mundir. „Á þessum tímum er afar mikilvægt að hér á landi sé stundaður landbúnaður og matvælaframleiðsla til þess að sjá okkur fyrir nauðsynjum,” sagði Ólafur og bætti við að ástandið undirstrikaði mikilvægi þess að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar. „Við getum velt því fyrir okkur hvernig komið væri fyrir þjóðinni ef við þyrftum gjaldeyri til þess að kaupa og flytja inn mjólkurvörur og aðrar landbúnaðarafurðir sem við berum gæfu til þess að framleiða hér innanlands,” sagði forsetinn.

Ólafur lagði mikla áherslu á að íslenska þjóðin gleymi ekki arfleið sinni, krafti og þeim dugnaði sem hafi gert þjóðina framsækna og sterka. „Þjóðin verður að horfast í augu við það sem nú er að gerast og draga af því lærdóm,” sagði Ólafur og bætti því við að Íslendingar gætu verið bjartsýnir því hér væru ótal tækifæri, landið væri ríkt af orku og hreinu neysluvatni, sem væru auðlindir sem aðrar þjóðir hefðu í takmörkuðu magni. Hér væri öflug matvælaframleiðsla og kraftmikið fólk sem hefur byggt upp sterkt samfélag. „Unga kynslóðin á Íslandi er sú best menntaðasta og hæfileikaríkasta sem landið hefur alið.” Ólafur bætti við að þetta fólk gæti valið sér starfsvettvang nánast hvar sem er í heiminum. Í því fellst ákveðin hætta ef við virkjum ekki þá möguleika sem við höfum.

Töluverðar umræður sköpuðust á klukkutíma löngum fundi forsetans með starfsfólki MS. Hann var meðal annars spurður um það hvort hætta fylgdi því ef Rússar aðstoðuðu okkur með lánveitingu og hvort aðför Gordons Browns að efnahagslífinu hefði afleiðingar í för með sér. Ólafur sagði að Gordon Brown muni seint gleymast í íslenskri sögu og ekki væri ástæða til þess að óttast afleiðingar þess ef við fengjum lán frá Rússum og vitnaði í áralanga viðskiptasögu landanna og stuðning Rússa við okkur á tímum þorskastríðanna.

Að fundinum loknum gengu forsetahjónin um húsnæði MS og skoðuðu meðal annars minjasafn fyrirtækisins.

Myndir frá heimsókninni:

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?