Finnar fagna góðu gengi skyrs

Um helgina fer fram sérstök skyrhátíð í Finnlandi þar sem íslenska skyrinu, íslenskri tónlist og íslenskri matarmenningu verður gert hátt undir höfði. Að hátíðinni standa finnskir söluaðilar skyrsins, Skyr Finland, og er viðburðurinn liður í því að fagna góðu gengi skyrs þar í landi. Yfirskrift hátíðarinnar á þá leið að Ísland sé komið til Finnlands en hátíðin fer fram á lítilli eyju rétt fyrir utan Helsinki og er nafni hennar af þessu tilefni tímabundið breytt í Ísland. Hugmyndin er að sameina tvær þjóðir yfir eina helgi og verður öllu tjaldað til til að gera hátíðina sem fjölbreyttasta og skemmtilegasta. Meðal þeirra sem fram koma eru plötusnúðurinn DJ Margeir og hljómsveitirnar Retro Stefson, Sísí Ey og Vio, en sú síðastnefnda stóð uppi sem sigurvegari Músíktilrauna á síðasta ári. Það er ekki nóg með að Finnarnir fái að njóta íslenskrar tónlistar heldur munu fleiri þekktir Íslendingar taka á móti gestum eyjarinnar þessa helgi. Annie Mist Þórisdóttir, afrekskona í Crossfit og tvöfaldur heimsmeistari í greininni verður með í för sem og kraftajötuninn Hafþór Júlíus og verður spennandi að sjá hverju þau taka upp á.

Á undanförnum árum hefur skyrneysla á Norðurlöndum vaxið gríðarlega og nágrannar okkar í Skandinavíu hafa tekið íslenska skyrinu fagnandi. Finnar eru sérstaklega sólgnir í skyrið og neyslan þar hefur farið fram úr björtustu vonum. Stöðug aukning hefur verið á skyrsölu í Finnlandi og nú er svo komið að eftirspurnin er mun meiri en framboðið þar sem framleiðslugetan annar vart eftirspurn. Skyrið fyrir finnska markaðinn er bæði framleitt hér á Íslandi og hjá Thise-mjólkurbúinu í Danmörku fyrir MS.

Skyrævintýri í Finnlandi hófst með ferðalagi ungs manns að nafni Miikka Eskola til Íslands fyrir tæpum fimm árum síðan. Hann kolféll fyrir íslenska skyrinu og í framhaldinu náðist samkomulag við MS um samstarf og útflutning á skyrinu þangað. Áhugi Finna á Íslandi hefur aukist mikið með tilkomu skyrsins og er skemmst frá því að segja að Ísland er sérstaklega vinsælt um þessar mundir. 

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?