Engar sjúkdómsvaldandi örverur hafa fundist í Stoðmjólk

MS biðst innilega velvirðingar á þeim óþægingum sem gölluð Stoðmjólk hefur valdið kaupendum og neytendum vörunnar.
 
Nú liggja fyrir niðurstöður rannsókna sem gerðar voru innanlands af MS og óháðri rannsóknarstofu. Seinna í mánuðinum fær MS niðurstöður rannsókna sem verið er að framkvæma erlendis og munum við þá einnig greina frá þeim niðurstöðum um leið og þær berast.
 
Niðurstöður þeirra rannsókna sem framkvæmdar voru innanlands eru þær að engar óæskilegar örverur fundust í Stoðmjólkinni. Ekkert hefur því fundist í þeim niðurstöðum sem liggja fyrir sem bendir til nokkurs sem getur valdið sjúkdómum eða heilsutjóni.
 
Einnig hefur MS farið mjög ítarlega yfir allar venjubundnar rannsóknir og mælingar sem gerðar voru innanhúss í framleiðsluferli vörunnar og þar hefur ekkert fundist aðfinnanlegt í reglubundnu eftirliti á vörunni nema að bragðgalli var staðfestur við endurtekið skynmat, 6 dögum eftir framleiðslu. Við sérstakar mælingar sem framkvæmdar voru fimmtudaginn 1. október mældist hækkun á svokölluðum fríum fitusýrum í vörunni. Þær losna úr fitu vörunnar og geta orsakað vont bragð í mjólkinni.
 
Við viljum koma því skýrt á framfæri að starfsfólk MS er mjög leitt vegna þessa atviks, og sérstaklega þar sem það er að fullu meðvitað um þann viðkvæma neysluhóp sem varan er ætluð. Þess vegna viljum við einnig ítreka við neytendur, eigi þeir enn umrædda vöru (Stoðmjólk b.f. 04.10.2015), að neyta hennar ekki og snúa sér beint til MS (s.450-1100).
 
MS skilur vel afstöðu neytenda um afdráttarlaus svör ef slík tilvik koma upp, en í stöðu sem þessari er erfitt að gefa afgerandi svör strax í upphafi máls því niðurstöður rannsókna þurfa að liggja fyrir svo unnt sé að finna og upplýsa um orsök. Það skal ítrekað að MS lítur málið mjög alvarlegum augum og er verið að skoða öll smáatriði varðandi ferla, gæðaprófanir og framleiðslu vörunnar sem um ræðir. MS ítrekar að fyrirtækið harmar þetta atvik mjög og biður þá innilega velvirðingar sem hafa orðið fyrir óþægindum vegna þess.
 
 
F.h. Mjólkursamsölunnar
Ari Edwald , forstjóri

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?