Beint í efni
En
Einstök sýning á verkum Kristínar Þorkelsdóttur

Einstök sýning á verkum Kristínar Þorkelsdóttur

Um þessar mundir stendur yfir sýning á verkum Kristínar Þorkelsdóttur hönnuðar

Eins og segir í kynningu á sýningunni hafa fáir hér á landi skilað af sér jafn mörgum listaverkum, sem tekið er sem sjálfgefnum, og hönnuðurinn Kristín Þorkelsdóttir. Verk hennar hafa verið hvað mest áberandi við hinar hversdagslegustu aðstærður, svo sem inni í ísskápum landsmanna, ofan í töskum þeirra eða við hefðbundið borðhald og má þar nefna mjólkurfernur og umbúðir fyrir Smjörva frá Mjólkursamsölunni en Kristín er hönnuður fjölmargra matvælaumbúða. Enn fremur má finna verk Kristínar á jafn óaðgengilegum stöðum og í læstum bankahirslum Seðlabanka Íslands þar sem hún er höfundur núgildandi peningaseðlaraðar, sem hún vann að ásamt hönnuðinum Stephen Fairbairn en þar er lærdómsmönnum fyrri tíma gert hátt undir höfði. Kristín hefur einnig hannað mörg merki fyrirtækja sem landsmönnum eru að góðu kunn og má þar nefna merki Osta og smjörsölunnar, Byko, Álafoss og Skátahreyfingarinnar.

Á sýningunni má sjá ógrynni af skissum, tilraunum og pælingum, kunnugleg og áður óséð verk, sem samanlagt umbreyttu ungri myndlistarkonu í einn helsta brautryðjanda landsins á sviði grafískrar hönnunar. Við mælum eindregið með heimsókn á Hönnunarsafn Íslands en sýning á verkum Kristínar stendur til 30. janúar 2022.