Drekka 20 þúsund lítra af mjólk í dag

Alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn verður haldinn hátíðlegur víða um heim í nítjánda sinn í dag. Eins og áður er það Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO (Food and Agriculture Organization of the United Nations) sem hvetur til hátíðarhalda á þessum degi og á Íslandi er haldið upp á hann undir kjörorðunum “Holl mjólk og heilbrigðir krakkar”. Öllum leik- og grunnskólum er boðið upp á mjólk í tilefni dagsins og er markmiðið að vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi mjólkur í daglegu fæði barnanna.

Glas af nýmjólk getur gefið 5-6 ára barni um 48% af próteinþörf, 9% af kaloríum og nauðsynlegum efnum eins og kalsíum, magnesíum, selíum, riboflavín, b12 og b5 vítamín. (http://www.fao.org/resources/infographics/infographics-details/en/c/273893/) Á Íslandi mælir Embætti landlæknis með tveim skömmtum af hreinum mjólkurvörum á dag.

Gera má ráð fyrir að drukknir verði um 20 þúsund lítrar af íslenskri mjólk í tilefni dagsins en einnig hefur skapast sú hefð á Skólamjólkurdeginum að efna til teiknisamkeppni meðal 4. bekkinga í grunnskólum landsins og stendur hún yfir til 21. desember. Menntamálaráðherra er meðal þeirra sem sitja í dómnefnd og er hér um að ræða viðburð sem vel flestir nemendur, skólastjórnendur og myndmenntakennarar landsins þekkja vel.

Hægt er að lesa nánar um skólamjólkurdaginn á heimasíðu FAO og sjá myndir og upplýsingar um fagnaðarhöld víða um heim gegnum árin.  - http://www.fao.org/economic/est/est-commodities/dairy/school-milk/en/

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?