Breytingar og fjárfestingar hjá MS

Mjólkursamsalan ræðst í umtalsverðar
fjárfestingar og breytingar á vinnsluskipulagi

 
-markmiðið er að hagræða í starfseminni til að tryggja lægra vöruverð
 og hærra hráefnisverð til bænda
-opnar möguleika til frekari útflutnings fyrir mjólkurvörur
 
Mjólkursamsalan, sem er afurðafyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda,  ræðst á næstu mánuðum í 1.500 – 2.000 milljóna króna fjárfestingar og breytingar á skipulagi í stærstu afurðastöðvum sínum.  Markmiðið er að ná fram frekari hagræðingu, sem ætlað er að skili sér í vöruverði til neytenda og hráefnisverði til bænda auk þess að skapa nýja möguleika til að flytja út skyr, osta og mysuafurðir. Gert er ráð fyrir að endurnýja og stækka ostaframleiðslu á Akureyri, endurnýja framleiðslu á sýrðum mjólkurvörum á Selfossi, færa saman á Selfossi mjólkurpökkun sem hefur verið þar og í Reykjavík og endurnýja ostapökkun í Reykjavík og byggja þar upp stóra birgðastöð og dreifistöð.
„Mjólkursamsalan hefur á undanförnum árum náð umtalsverðum árangri í hagræðingu og sparnaði“, segir Einar Sigurðsson, forstjóri félagsins. Kostnaður við söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurafurða hefur verið lækkaður um 2 milljarða króna á ársgrunni. Þessi ávinningur hefur átt mestan þátt í að halda hér niðri verði mjólkurvara á sama tíma og eldsneytisverð, orkuverð, erlend aðföng og  hráefnisverð til bænda hefur hækkað verulega vegna kostnaðarhækkana þeirra.“
 „Mjólkursamsalan þarf stöðugt að þróa starfsemi sína og leita hagræðingarkosta. Við gerum ráð fyrir að þurfa að mæta innflutningi einhverra mjólkurafurða á næstu árum. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á að gera vinnsluna hér heima sem hagkvæmasta og styrkja gæðaímynd íslenskra mjólkurafurða“ segir Einar Sigurðsson.
Í fyrra hófst Mjólkursamsalan handa um breytingar á mjólkurpökkun og býður tvær tegundir drykkjarmjólkur í fernum með skrúfuðum tappa. Þessum handhægu og þægilegu umbúðum hefur verið afar vel tekið.  Með nýjum mjólkurpökkunarvélum sem settar verða niður á Selfossi skapast möguleiki til að bjóða fleiri mjólkurtegundir í þessum umbúðum.  
Mjólkursamsalan sinnir öllum skyrútflutningi frá landinu með framleiðslu frá Selfossi. Með þessum breytingum eykst framleiðslugetan verulega og geymsluþol eykst ssem gefur færi á að flytja skyr lengri vegalengdir.
Framleiðslugeta fyrir ost á Akureyri verður aukin með nýjum ostapressum . Þetta ásamt framleiðslu á mysuafurðum sem falla til við ostaframleiðsluna mun fjölga útflutningsmöguleikum . 
Í Reykjavík verður ostaskurður og ostapökkun endurnýjuð og skapaðir möguleikar á að staðla ostastykki og sníða þannig að þau verði handhægari í meðförum hjá neytendum.
Mjólkursamsalan hefur um margra ára skeið undirbúið að setja upp á höfuðborgarsvæðinu stóra birgða og dreifistöð.  Lengi vel var áformað að byggja slíka stöð á Hólmsheiði en þeim áformum var slegið á frest m.a. vegna kostnaðar. Með því að setja nýja mjólkurpökkunarvélar niður á Selfossi skapast möguleikar til að byggja upp slíka birgða- og dreifistöð í núverandi húsnæði félagsins á Bitruhálsi.
Markmið félagsins er að þessum breytingum verði lokið fyrir mitt ár 2013. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar í starfseminni leiði til þess að á nokkrum misserum verði fækkun í starfsliði Mjólkursamsölunnar, sem mest kemur fram í Reykjavík. Fyrirsjáanleg er töluverð starfsmannavelta í rekstrinum á næstu misserum sem skapar svigrúm til að bjóða hluta starfsmanna tilflutning í starfi. Stjórnendur munu á næstu dögum fara yfir fyrirhugaðar breytingar með þeim starfsmönnum sem málið varðar og kynna þá möguleika sem eru fyrir hendi.
Nánari upplýsingar gefur
Einar Sigurðsson, forstjóri
s. 560 2202
e-mail: einars@ms.is

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?