Bretar borða 600 tonn af íslensku skyri á einu ári

Mikil söluaukning hefur verið á Ísey skyri síðasta árið en hún nemur um 70% og þegar árið er úti verða Bretar búnir að gæða sér á 600 tonnum af íslensku skyri. Ísey skyr fæst nú í yfir 600 matvörubúðum í Bretlandi hjá þremur verslunarkeðjum, Aldi, Costco og Waitrose.

Íslenskt landslag á miðri lestarstöð í London

Óhefðbundin leið var farin á dögunum til að kynna Ísey skyr fyrir breskum neytendum en ætlunin var að vekja forvitni og hrifningu meðal fólks og sýna íslenska náttúru með nýjum hætti. Viðburðurinn fór fram á Kings Cross lestarstöðinni í London í lok nóvember. Stórum ramma var komið fyrir á áberandi stað og með sýndarveruleikatækni gátu gestir og gangandi stigið inn í íslenskt landslag og upplifað landið í hráu umhverfi lestarstöðvarinnar. Þátttakendur fylgdust með geysi gjósa, horfðu á norðurljósin dansa og sáu Ísey skyr birtast í fallegu landslaginu. Uppátækið vakti mikla lukku meðal gesta lestastöðvarinnar.

Samhliða viðburðinum á Kings Cross lestarstöðinni var Ísey skyri dreift til fólks sem starfar í fyrirtækjum nálægt stöðinni og í fyrirtæki í grennd við verslanirnar Aldi og Waitrose sem selja Ísey skyr. Erna Erlendsdóttir, útflutningsstjóri Mjólkursamsölunnar, segir að uppákoman hafi vakið mikla athygli, margir hafi verið að smakka skyrið í fyrsta sinn og tóku sérstaklega fram að það yrði ekki í síðasta sinn.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?