Átakið Mjólkin gefur styrk stórbætir skurðstofu Landspítalans

Söfnun Mjólkursamsölunnar Mjólkin gefur styrk stuðlaði að því að nýr o-bogi er kominn í notkun á skurðstofu í Fossvogi. O-boginn var keyptur fyrir íslenskt skattfé og þykir nýtast sérlega vel til vandasamra aðgerða í bæklunarlækningum, svo sem flókinna aðgerða á hrygg. O-boginn gerir læknum kleift að fá þrívíddarmyndir af beinum sjúklingum meðan þeir eru í aðgerð sem jafnast á við bestu tölvusneiðmyndir, að sögn Björns Zoëga, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Öryggi og nákvæmni í öllum aðgerðum eykst til muna með tilkomu nýrra tækja en til þess að geta nýtt o-bogann þurfti spítalinn enn fremur sérstakt skurðarborð sem o-boginn getur myndað í gegnum. Það skurðarborð, auk sérstaks lyftara, er tilkomið fyrir gjafafé frá Mjólkursamsölunni, en 30 kr. af hverri seldri fernu af D-vítamínbættri léttmjólk runnu til tækjakaupa í október á síðasta ári. Tækjabúnaðurinn var formlega afhentur nú í vikunni en var settur upp og tekinn í notkun fyrr á árinu, enda þörfin og biðin eftir hvoru tveggja orðin löng. 

Eftir formlega afhendingu og kynningu á nýjum tækjabúnaði og því hvernig hann breytir og bætir þjónustu við skjólstæðinga sem og vinnuumhverfi starfsmanna var að sjálfsögðu skálað í ískaldri mjólk. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá afhendingu skurðarborðsins og þar sést nýi o-boginn jafnframt.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?