Afhjúpun söguskilta í Dölunum - þér er boðið

Þann 12. maí n.k. verður efnt til sögulegra viðburða í Dalabyggð þegar ný söguskilti verða afhjúpuð við hátíðlega athöfn.

Að frumkvæði Sturlunefndar var efnt til framleiðslu á fjórum söguskiltum sem sett verða upp á Gullna söguhringnum sem liggur frá Búðardal, út fyrir Klofning og að Saurbæ. Dalirnir búa yfir ríkri sögu þar sem nokkrar af þekktustu Íslendingasögunum áttu sér stað og er óhætt að segja að svæðið sé sannkallað sögusamfélag þar sem fortíðin er falin í gömlum örnefnum og bæjarnöfnum.

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, afhjúpar fyrsta skiltið við Hjarðarholt kl. 14 og að því loknu verður efnt til móttöku í Dalabúð þar sem boðið verður upp á veitingar og létta dagskrá. Meðal þeirra sem taka til máls eru Kristján Sturluson, sveitastjóri Dalabyggðar og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar og þá munu börn úr Auðarskóla í Búðardal syngja nokkur lög fyrir gesti. 

Það er Mjólkursamsalan sem kostar gerð skiltanna en þau voru unnin í samvinnu við Sturlunefnd og auglýsingastofuna Hvíta húsið. Myndirnar sem prýða skiltin teiknaði Ingólfur Örn Björgvinsson myndskreytir og Vegagerðin sér um að koma skiltunum fyrir.

Allir velkomnir.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?