Aðalfundur Auðhumlu og nýjar stjórnir Auðhumlu og MS

Aðalfundur Auðhumlu svf. Var haldinn í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í síðasta mánuði, fundinn sóttu þegar mest var tæplega 90 manns en fulltrúar með atkvæðisrétt voru 55. Egill Sigurðsson, stjórnarformaður félagsins, hélt ræðu fyrir gesti og nefndi þar að kúabændur stæðu nú frammi fyrir veigameiri verkefnum en verið hafi um langa hríð. Þessi verkefni má rekja til nokkurra stórra áhrifaþátta sem valdið hafa svipt­ingum í afkomu kúabænda og vinnslufyrirtækja þeirra síðustu misseri. 

Í fyrsta lagi sveiflur á markaði. Hér var fituskortur árið 2013 en síðan jókst framleiðslan sem leiddi til offramboðs jafnt á fitu sem próteini. Bændur hafa notið góðs af þessu en áhrifin hafa verið neikvæð fyrir MS og Auðhumlu. 

Þá nefndi Egill annan áhrifaþátt, framþróun í mjaltatækni og fóðuröfl­un. Þessi þróun skapar mikla hagræðingarmöguleika en er dýr og hagkvæmni háð stóraukinni bústærð. Ný tækni kallar á stækkun búa og um leið fækkun þeirra. Áhrif þessara tveggja þátta, eftirspurnar­breytinga og tæknibreytinga, koma fram með ólíkum hætti í starfsemi bænda og afurðafyrirtækjanna. Bændur, einkum þeir sem framleitt hafa umframmjólk hafa borið meira úr býtum en ella, en vinnslufyrir­tækin hafa tekið á sig afkomutap. 

Egill nefndi einnig þriðja þáttinn sem er útflutningur vöru, hugvits og/eða þjónustu, með uppbyggingu á alþjóðlegum skyrmarkaði á undanförnum 6 árum. Framundan er endurmat á þessari starfsemi með það í huga að auka enn hlutdeild íslenskra kúabænda í alþjóð­legum skyrmarkaði.

Í máli Ara Edwalds forstjóra Mjólk­ursamsölunnar kom einnig fram að hið mikla mjólkurmagn veldur miklu álagi á vinnslu og flutningakerfi og bilanir á framleiðslutækjum geta auðveldlega sett allt úr skorðum. Ari gat þess að mikið mjólkurmagn væri helsta ástæða rekstrartaps MS á liðnu ári auk þess sem kjarasamn­ingshækkanir og dráttur á verðlagn­ingu vægju þungt. Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri Auðhumlu fór yfir samstæðureikning ársins 2015, en tap samstæðunnar nam 104 milljónum króna.

Ný stjórn Auðhumlu var kjörin á fundinum en hana skipa:
Egill Sigurðsson, Berustöðum, formaður
Jóhannes Torfason, Torfalæk, varaformaður
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum, ritari
Elín M. Stefánsdóttir, Fellshlíð, meðstjórnandi
Jóhanna Hreinsdóttir, Káraneskoti, meðstjórnandi
Ásvaldur Þormóðsson, Stóru-Tjörnum, meðstjórnandi
Sæmundur Jón Jónsson, Árbæ, meðstjórnandi.

Í kjölfar aðalfundar Auðhumlu hafa orðið breytingar á stjórn MS.

Jóhannes Torfason Torfalæk er nýr aðal­maður í stjórn en var áður varamaður. Hann kemur í stað Jóhannesar Ævars Jónssonar Espigrund. Nýir varamenn eru: Ásvaldur Þormóðsson Stóru Tjörnum, Sæmundur Jón Jónsson Árbæ og Laufey Bjarnadóttir Stakkhamri. Þau koma í stað Arnars Bjarna Eiríkssonar Gunnbjarnarholti, Maríu Hauksdóttur Geira­koti og Jóhannesar Torfasonar sem færðist í aðalstjórn.

Stjórn MS skipa nú:
Egill Sigurðsson Berustöðum formaður
Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri KS varaformaður
Birna Þorsteinsdóttir Reykjum
Elín M Stefánsdóttir Fellshlíð
Jóhannes Torfason Torfalæk

Varamenn:
Ásvaldur Þormóðsson Stóru Tjörnum
Laufey Bjarnadóttir Stakkholti
Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti
Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri KS
Sæmundur Jón Jónsson Árbæ

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?