60 milljón lítra vinnslustöð

Mjólkursamsalan opnaði síðastliðinn föstudag, endurnýjaða vinnslustöð á Selfossi þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, ræsti stærstu mjólkurpökkunarvél búsins. Mjólkurvinnsla á Selfossi verður stækkuð um 40% þegar liðlega 20 milljóna lítra mjólkurpökkun flyst frá Reykjavík. Mjólkursamsalan hefur þá fjárfest í Selfossbúinu fyrir rúmlega einn og hálfan milljarð króna á fjórum árum. Heildarendurskipulagningu búsins og mjólkurvinnslu í landinu er því um það bil að ljúka.

Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar sagði að með endurnýjun vinnslustöðvarinnar yrði öll vinnsla og pökkun drykkjarmjólkur fyrir vestan- og sunnanvert landið færð til Selfoss og þar yrði einnig framleiðsla á sýrðum vörum og viðbiti (smjörvörum) fyrir allt landið. „Markmið fyrirtækisins er að tryggja neytendum mikið vöruúrval og vörugæði og hagkvæmt vöruverð. Uppbyggingin á Selfossi styrkir fyrirtækið í sókn að þessum markmiðum. Við erum þegar komin með á markað fyrstu nýjungarnar í drykkjarvörum og neyslumjólk í breyttum umbúðum. Von er á enn fleiri nýjungum í öllum þessum vöruflokkum“.
MS tekur á móti 60 milljón mjólkurlítrum á ári á Selfossi og umbreytir í hollar og góðar mjólkurafurðir fyrir neytendur. Mesta breytingin verður í þessum mánuði þegar öll mjólkurpökkun flyst frá Reykjavík til Selfoss.  Öll viðbitspökkun fyrir landið verður þar í sérstakri viðbitsdeild (smjörvörudeild) og vinnsla og pökkun á nær öllum sýrðum vörum á borð við skyr og jógúrt.
Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri á Selfossi, sagði að það yrði sannarlega áskorun fyrir starfsfólk á Selfossi að taka á móti til vinnslu öðrum hverjum lítra mjólkur sem framleiddur er í landinu. „Við búum hér að yfir 80 ára reynslu, mikilli fagþekkingu og frábæru og samhentu starfsfólki. Við ætlum okkur stóra hluti, ekki aðeins í því magni sem fer hér í gegn, heldur einnig í áframhaldandi vöruþróun og áherslum á vörugæði. Við ætlum að tryggja markaðnum hér bestu mjólkurafurðir sem völ er á.“
Mjólkursamsalan var stofnuð í núverandi mynd í ársbyrjun 2007. Síðan hefur verið unnið að mikilli hagræðingu í greininni og með því hefur árskostnaður við mjólkurvinnslu í landinu verið lækkaður um ríflega tvo milljarða króna eða um liðlega 20%. Ávinningi af því hefur verið veitt til bænda í formi hærra hráefnisverðs og til neytenda með því að haldið hefur verið aftur af vöruverðshækkunum.   Enduruppbygging mjólkurvinnslunnar á Selfossi er hluti af þessu hagræðingarverkefni. Þar hefur tekist að endurskipuleggja starfsemina í eldri byggingum þannig að vinnslan hefur verið aukin um 40% án þess að bæta við húsnæði.
Yfir 200 gestir fylgdust með opnun endurnýjaðrar stöðvar og voru viðstaddir auk ráðherra, starfsmenn, núverandi og fyrrverandi, þingmenn og sveitarstjórnarmenn og fulltrúar verslunarinnar.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?