40% aukning í sölu á Skyr.is

Morgunblaðið greinir frá því í dag að það sem af er ári hefur sala á Skyr.is aukist um 40% á innanlandsmarkaði og má þar m.a. þakka þeim góðu viðtökum sem Skyr.is próteindrykkurinn hefur fengið sem og nýjum bragðtegundum í Skyr.is línunni sem neytendur hafa tekið mjög vel. Skyr.is drykkurinn var fyrst settur á markað í Finnlandi fyrr á árinu og í framhaldinu hófst sala á honum hér á landi. Aukin sala á próteinríkum afurðum minnkar ójafnvægi í framleiðslunni og dregur úr því mikla bili sem verið hefur á milli prótein- og fituhlutans síðustu misseri. 

Útflutningur á skyri hefur staðist væntingar það sem af er ári og mest er salan í Finnlandi, en á síðasta ári voru þar seld um 5.500 tonn, að sögn Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar. Dregið hefur úr þeirri miklu söluaukninu sem var þar í landi en í staðinn hefur salan á nýja próteindrykknum gefist vel. Drykkurinn er framleiddur hjá MS Selfossi fyrir báða markaði og eru seldar um 40 þúsund fernur á viku í Finnlandi, eða 15 tonn.

Mjólkurframleiðslan í landinu hefur verið meiri á þessu ári en nokkurn tímann áður og eiga starfsmenn MS í fullu fangi með að gera úr henni verðmætar afurðir fyrir bæði innanlandsmarkað sem og til útflutnings. Framleiðslan er þannig talsvert umfram sölu á innanlandsmarkaði og þann útflutning sem hægt er að stunda fyrir viðunandi verð, að sögn Ara. Þarna munar 16 milljón lítrum á fitugrunni og 26 milljón lítrum á próteingrunni. Innvegin mjólk var í byrjun þessa árs um 11% yfir framleiðslunni á síðasta ári en dregið hefur úr aukningu og er innvegin mjólk nú um 6% yfir framleiðslu í sömu viku í fyrra. Þessi offramleiðsla hefur valdið Mjólkursamsölunni erfiðleikum en birgðir safnast upp og hefur undanrennuduft og smjör verið flutt út á heimsmarkaðsverði sem er mjög lágt um þessar mundir. Ari segir æskilegt að draga enn frekar úr framleiðslu en tekur fram að það taki sinn tíma. „Við gerum okkur vonir um að seinni hluti ársins verði nær því sem var á sama tíma í fyrra og við náum tökum á ójafnvægi í framleiðslunni á næsta ári,“ segir Ari.

Greinina í Morgunblaðinu má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?