16. alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er í dag

Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur síðasta miðvikudag í september ár hvert að undirlagi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Haldið er upp á daginn í tæplega 30 löndum víða um heim til að fagna þeim heilsufarslegu ávinningum sem mjólkurneysla í skólum hefur í för með sér. Mjólkursamsalan hefur tekið þátt í deginum frá byrjun og býður öllum leik- og grunnskólanemum upp á mjólk í skólunum og má reikna með að þar verði drukknir 16.000 lítrar af mjólk.

Sífellt fleiri stjórnvöld í löndum heimsins eru að vakna til vitundar um mikilvægi mjólkurneyslu barna og unglinga í skólum. Mjólk er próteinrík og auk þess mikilvæg uppspretta nauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni. Sérstaða mjólkur felst þó fyrst og fremst í því hve góður kalkgjafi hún er og vart er hægt að hugsa sér betri og næringarríkari drykk til að gefa börnum og unglingum.

 

Teiknisamkeppni 4. bekkinga

Víða um heim eru haldnir fyrirlestrar, farið í skrúðgöngur og haldnar ritgerðasamkeppnir í tilefni dagsins. Hér hefur skapast sú hefð að efna til teiknisamkeppni meðal 4. bekkinga í grunnskólum landsins og stendur hún yfir til 20. desember. Menntamálaráðherra er meðal þeirra sem sitja í dómnefnd og er hér um að ræða viðburð sem vel flestir nemendur, skólastjórnendur og myndmenntakennarar landsins þekkja vel. Sköpunargleði barnanna er ótæmandi og gaman að sjá frjótt hugmyndarflug þeirra taka á sig mynd. Myndefnið er algjörlega frjálst en æskilegt er að myndefnið tengist hollustu mjólkurinnar fyrir ungt fólk. Hér má sjá hluta af afrakstri keppninnar í fyrra en tíu myndir hlutu viðurkenningar.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?